Skógasafn

 

Skógasafn eða Byggðasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga í Skógum hefur staðist tímans tönn og vaxið ásmegin allt frá stofnun og til dagsins í dag. Það er fyrst og fremst verk eins frumkvöðuls og hugsjónamanns, Þórðar Tómassonar safnstjóra, sem ungur hóf að bjarga hlutum, stórum og smáum frá glötun hverfandi menningar og verklags gamla bændasamfélagsins. Á leið sinni hefur hann notið stuðnings margra góðra manna sem hafa lagt lóð sín á vogaskálarnar og tekið þátt í uppbyggingu á einu glæsilegasta safni landsins og þótt víðar væri leitað.

Safnið á sér sögu frá 1946 en þann 1. desember 1949 var safnið formlega opnað og var það fyrir atbeina þáverandi skólastjóra Héraðsskólans í Skógum, Magnúsar Gíslasonar, en hann var mikill áhugamaður um þjóðlegar minjar og fékk því stað í litlu herbergi í kjallara skólans.

Safnhús var síðan reist í Skógum árin 1954 til 1955 eftir teikningum Matthíasar Einarssonar byggingameistara Skógaskóla. Húsið var að segja má byggt utan um það sem enn í dag mætti kalla flaggskip safnsins, áttæringinn Pétursey, smíðaður árið 1855. Safnvörður var ráðinn Þórður Tómasson frá Vallnatúni árið 1959. Framkvæmdarstjóri safnsins í dag er Sverrir Magnússon, síðasti skólastjóri Skógaskóla en Þórður Tómasson sinnir enn starfi safnstjóra.

Safnið hefur frá upphafi þróast og stækkað ár frá ári. Árið 1994 var lokið við að reisa veglega nýbyggingu við aðalbyggingu safnsins sem létti á þörf fyrir aukið rými til sýninga. Einnig hefur safnið fengið til sín hús sem bera glöggt vitni um byggingar og aðbúnað fólks fyrr á öldum. Nú má finna á safnsvæðinu torfbæ sem samanstendur af: stofu, búri, hlóðaeldhúsi, baðstofu, skemmu, fjósi og eldsmiðju en einnig er þar að finna rafstöð, fjósbaðsstofu, skemmu, reisulegt timburhús, skólahús og síðast en ekki síst gamla sveitakirkju.

Samhliða Byggðasafninu hefur risið á svæðinu 1500 fermetra samgöngusafn í glæsilegu húsi en þar má rekja sögu samgangna á Íslandi þar sem sjá má ýmis tæki og tól, svo sem vélar og farartæki ásamt fjarskiptatækjum og fleiru. Það safn á eins og Byggðasafnið eftir að blómstra um ókomna tíð og stækka og eflast.

Leiðarlýsing frá Eyvindarholt Hill House og Cabins

Ekið sem leið liggur niður á þjóðveg og til austurs. Það eru um 33 kílómetrar og 30 mín. akstur að Skógum frá Eyvindarholti

 

Staðsetning: GPS: 63° 31.556' -19° 29.530'

Tími til að skoða safnið: 1 til 3 klukkustundir

 

Kort:

 

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top