Gljúfrabúi

 

Gljúfurá á upptök sín rétt norðan við Tröllagil í Hamragarðaheiði. Áin er lindá og heldur vatnsminni en Seljalandsá, nágranni hennar. Áin rennur frá Tröllagilsmýri, fagra og gróðursæla mýri í heiðinni. Þegar áin kemur fram úr mýrinni rennur eða fellur hún í norðurjaðri hrauns sem rann þarna fram heiðina og stöðvaðist á brúninni fyrir ofan Hamragarða. Seljalandsá afmarkar suðurjaðar hraunsins. Á þessu svæði má finna nokkra smáfossa í ánni. Síðasta spölinn að hamrabrúninni er landið sléttara. Á þeim slóðum er farið yfir ána á vaði sé ekið upp í Hamragarðaheiði.

Þá steypist áin fram af hamrabrúninni rétt fyrir norðan Hamragarða. Fossinn Gljúfrabúi eða Gljúfurárfoss er um 40 metra hár og yfir honum hvílir ákveðin dulúð þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en fyrir framan fossinn er mikill hamraveggur sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Áin rennur svo fram úr gjánni undan hamraveggnum. Þar má vaða inn ef enginn telur sig verri þótt hann vökni en þá á hann á hættu að fá grjót í höfuðið og er engum ráðlagt að reyna það.

Sé kosið að virða fossinn betur fyrir sér verður að halda á brattann og klífa upp hamravegginn. Þar er ágætur stígur og keðjur til að styðja sig við á verstu köflunum. Nauðsynlegt er að fara að öllu með gát, einnig þegar upp er komið og reynt að horfa niður eftir gjánni.

Fossinn er sem áður segir mjög sérstakur og á fá sína líka, umhverfið gróið, fyrst grónar og blómlegar brekkur og síðan grónar klettasyllur. Fossinn er dulúðugur og krefjandi.

Þegar áin hefur brotið sér leið fram úr gjánni rennur hún fram sléttlendi og sameinast að lokum Markarfljóti frammi á aurunum.


Leiðarlýsinga frá Eyvindarholti Hill House og Cabins

Ekið áleiðis að þjóveginum að bílastæðinu við Gljúfrabúa um 5 kílómetrar. Þaðan er gengið að fossinum. Tekur um 5 mínútur að ganga að honum ef lagt er við Hamragarða annars um 10 mínútur ef lagt er út á aurnum milli Seljalandsfoss og Gljúfrabúa.

Staðsetning: GPS: 63° 37.251' -19° 59.171'

Erfiðleiki: Auðvelt

Lengd gönguleiðar: Um 100 metrar í heildina

Áætlaður göngutími: 5 min frá bílastæðinu við Hamragarða en um 20 til 30 mín ef gengið er frá Seljalandsfossi

Kort:

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top