Seljavallalaug

 

Bygging Seljavallalaugar er sannkallað þrekvirki og ber þeim sem þar lögðu hönd á plóginn fagurt merki um mikið þrek og stórhug ungs fólks í upphafi síðustu aldar.

Staðsetning laugarinnar er löngu rómuð fyrir fegurð og mikilfengleika, þar sem hún stendur í fögum fjallasal, rétt fremst við Laugarárgil. Allt um kring eru klettar og grónar brekkur þar sem gil og skorningar með lækjum brjóta landslagið upp. Við laugina sjálfa er klettaveggurinn einn bakki hennar og á hina hliðina skammt frá lauginni streymir Laugará fram dalinn. Kyrrðin þarna er algjör, aðeins ómur náttúrunnar, söngur fýlsins og ómur vatnsins, sannkallað ævintýraland.

Eins og fyrr segir voru það ungir menn í sveitinni í upphafi 20. aldar sem lögðu á brattann og hófu uppbygginguna. Þeir fengu síðan með sér sveitunga sína.

Forsagan er sú að Björn J. Andrésson var beðinn af Jóni Hjörleifssyni hreppstjóra, væntanlega fyrir tilstuðlan Ragnars Hjörleifssonar í Skarðshlíð, að vera fulltrúi sveitar sinnar á íþróttanámskeiði í Reykjavík árið 1922.

Hugmyndin var síðan sú að Björn mundi taka að sér kennslu sveitunga sinna í íþróttum og sundi að námskeiði loknu en á þessum tíma var uppganga æskulýðsstarf sog ungmennafélaganna að hefja sitt blómaskeið.

Björn gekk að þessu tilboði og nam um tíma ásamt öðrum á námskeiði hjá norskum íþróttafrömuði.

Þegar Björn kom aftur undir Fjöllin stóð hugur hans til þess að byggja sundlaug fyrir innan Seljavelli. Hann hafði ráðfært sig við vin sinn, Björn Guðmundsson frá Gíslakoti, sem leist vel á hugmyndina enda sundmaður eins og Björn.

Leitaði Björn stuðnings hjá sveitungum sínum sem tóku hugmyndum hans vel en þar var fremstur í flokki stórbóndinn Ólafur á Þorvaldseyri. Bauðst Björn til að kenna þeim sem leggðu hönd á plóginn sund endurgjaldslaust þegar byggingu laugarinnar væri lokið.

Hafist var svo handa við byggingu laugarinnar en til byggingarinnar var notað grjót og torf. Verkið gekk vel og var því lokið á tveim dögum. En við verklok segir Björn svo frá í frásögn sinni sem skráð er af Eddu Björnsdóttur dóttur hans í Goðasteini:

Það var hrífandi stund að horfa á volga vatnið streyma ofan í laugina eftir tveggja daga stranga vinnu. Allur hópurinn, þeir 25 menn sem þarna höfðu verið að verki, stilltu sér upp á laugarvegginn í kvöldhúminu til að njóta þess að sjá þetta sem best. Á meðan sungu allir “Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring”. Þegar ljóðlínan í kvæðinu “Hér skal þú Ísland barni þínu vagga” var sungin, var sem magnþrunginn kraftur fylgdi hverju orði.

Laug þessi var 9 metrar á lengd og 4 til 5 metrar á breidd. Heitt vatn var leitt í hana úr heitum uppsprettum sem í hana streyma.

Þrem dögum eftir byggingu laugarinnar átti að hefjast þar sundnámskeið en það leit ekki vel út kvöldið áður þar sem lítið sem ekkert vatn var komið í laugina.

Að morgni fyrst dags námskeiðsins var sama sagan, lítið sem ekkert vatn var í lauginni, menn lögðust þó í vatnið, allt í einu tók vatnið að stíga og brátt var laugin full af vatni.

Þá gat námseiðið hafist og eftir sjö daga voru allir 25 nemendurnir sem á því voru komir á flot. Nemendur bjuggu í tjöldum við laugina en ásamt sundnáminu stunduðu menn einnig íþróttir.

Nú hófu menn að huga að byggingu steyptar og stærri laugar, en menn létu sér ekki nægja að hugsa um það heldur tóku af skarið, hófu að safna fé til byggingarinnar. Í kjólfar þess var stofnað Íþróttafélag Eyfellinga þann 23. desember 1922.

Hafist var handa við framkvæmdir strax milli jóla og nýjárs. Björn gekk síðan fá kaupum á sementi um veturinn og hafist var handa næsta vor og um haustið var laugin tilbúin, en á þeim tíma var hún stærsta sundlaug landsins og í dag verður að telja hana með þeim fallegri.

Árið 1998 var laugin tekin í gegn og gerð upp af velunnurum hennar. Lauginn varð illilega fyrir barðinu á eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og fylltist lauginn af ösku. Farið var með stórvirka vinnuvélar inn að lauginn til að hreinsa hana og er hún í dag komið í sama horf og áður. 

Mikill straumur ferðamanna er í laugina á degi hverjum. 

Leiðarlýsing frá Eyvindarholti Hill House og Cabins

Seljavallalaug er um 28 kílómetra austan við Eyvindarholt. Ekið er austur sem leið liggur að vegamótum vegar númers 242 (Raufarfell). Ekið er sem leið liggur inn dalinn að Seljavöllum og þar er bílastæði við sumarhús sem eru þar upp í hlíðinni. Þaðan er gengið að lauginni. Gangan tekur um 30 mínútur aðra leið.

Staðsetning Seljavallalaugar: GPS: 63° 34.003' -19° 36.376'

Erfiðleiki: Auðvelt

Vegalengd (aðra leið): Um 850 metrar

Áætlaður göngutími aðra leið: 30 mínútur.

Kort:

 

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top