Gróðurfar svæðisins

 

Segja má að Eyjafjöllin hafi nokkra fjölbreytni í gróður- og náttúrufari. Hvað gróðurfar varðar þá má finna miklar andstæður, allt frá grónum svæðum, mýrum, melum, móum og söndum. En sökum þess hversu hæðarmunur er mikill frá ströndinni upp í rúmlega 1600 metra hæð má einnig finna ólík svæði gróðurfarslega. Gott tíðarfar gerir það einnig að verkum að gróður á auðvelt uppdráttar á svæðinu, úrkoma er næg og veður jafnan hlýtt. Það vorar snemma undir Eyjafjöllum og haustið kemur seint. Gróðurlendi upp til heiða hefur átt undir högg að sækja á síðustu öld en nú má ætla með hlýnandi veðurfari og minni beit sauðfjár að landið taki að endurheimta landgæði sín og hver veit nema að í framtíðinni verði landið ámóta og það tók á móti Þrasa og Þorgeiri og fleirum sem námu land undir Eyjafjöllum.

 

Norðan Eyjafjallajökuls frá Merkurnesi að Steinsholti

Þegar ekið er áleiðis inn í Þórsmörk eða inn á Goðaland er gróðurfar með allt öðrum hætti en sunnan Eyjafjalla. Þar mótast landið af Markarfljótsaurum á láglendi. Brött hamrabelti með skriðum að Gígjökli en inn á milli má finna fagurlega gróin svæði. Þegar komið er inn fyrir Stóru-Mörk á leið inn úr er fljótlega ekið eftir Langanesi (Merkurnesi) en það nafn ber láglendið undir hamrabeltinu fram á fljótsauranna allt austur að Steinsholti. En áður en komið er inn á Langanes er ekið fram hjá Nauthúsagili en inn í því vex reyniviður. Í upphafi 20. aldar var þar ein mikil og landsþekkt reyniviðarhrísla, Hríslan, sem brotnaði árið 1937. Land þetta er fjölbreytt gróðurfarslega en þó ekki miðað við það sem áður var og þekktist en í bók Þórðar Tómassonar í Skógum um Þórsmörk og nágrenni segir:

Langanes er nú svipur hjá sjón miðað við það sem var á fyrri öldum er skógar klæddu sléttur og hlíðar heiman frá byggð og inn á afrétta. (Þórður Tómasson, 1996)

Það má því segja að landið og gróðurinn hafi beðið lægri hlut fyrir náttúruöflunum og mannskepnunni og fylgifiskum hennar. En landið var nytjað til skógarhöggs og beitar ásamt því sem veður og vindar hafa leikið um það og blásið það upp. En Markarfljót hefur einnig étið sig inn í nesið.

Í dag er gróður þarna þó á uppleið og má finna góðar og grónar gróðurspildur víða á þessu svæði að Gígjökli. Þar er meðal annars að finna krækiberjalyng, kjarnagrös, bláberjalyng, sortulyng og beitilyng ásamt gulvíði svo eitthvað sé nefnt.

Hamrabeltið á þessum slóðum er hátt eða allt að 500 metrar. Frá þeim liggja skriður niður á láglendið misgrónar. Þessir klettar eru flestir frekar gróðurlitlir og þegar komið er upp á hamrabrúnina þá er þar mjög lítið um gróður. Þó eru gil, sem ganga fram úr klettunum á þessum slóðum, oft nokkuð gróin.

Örnefni á þessum slóðum benda einnig á að gróður hafi verið meiri áður en nú. Í því sambandi má nefna Áslákshól en þar segir sagan að samnefndur maður hafi verið drepinn við skógarhögg og staðurinn nefndur eftir honum.

 

Suðurafréttir frá Steinsholti til Teigstungna

Fyrir innan Gígjökul tekur landið á sig nokkuð aðra mynd. Hamrabeltið verður ekki einsleitt sem áður heldur ná fjöll á þessum slóðum lengra niður á láglendið og inn í þau skerast dalir og gil.

Þegar komið er inn á Steinsholt taka við suðurafréttir (sunnan Þórsmerkur) en þeir eru í réttri röð Steinsholt, Stakkholt, Merkurtungur og Goðaland.

Þessir gömlu afréttir létu á sjá á síðustu öld en hafa heldur rétt úr kútnum á undanförnum áratugum. Um afréttinn Steinsholt og Stakkholt tel ég best að vitna í orð Þórðar Tómassonar í bók hans, Þórsmörk:

Steinsholt hefur kannski aldrei verið mjög gróðursælt, en þetta gat vart talist annað en einkar rýr afréttur þegar beit var aflétt, þótt kjarngróður væri á stöku stöðum. Hið sama má segja um Stakkholt, þótt gróður væri öllu gróskumeiri þar en á Steinsholti. Þar má finna gróðursælar hvilftir og hlýlegar hlíðar og ber Fagriskógur þar af. Hann bar sjálfsagt nafn með rentu í fyrri tíð, en allur skógur var horfinn þaðan á 18. öld. (Þórður Tómasson, 1996)

Þetta segir kannski sína sögu að einhverju leyti. En hvað Steinsholt varðar þá má kannski segja að nafnið sjálft lýsi þar best landskostum. Á aurunum fyrir framan Steinsholt, Stakkholt, Merkurtungur og Goðaland er gróður þó að ná sér töluvert á strik nema það svæði þar sem Steinsholtsá og Hvanná renna um. Þarna er kominn mosa- og lynggróður sem setur mikinn svip sinn á svarta aurana. Svipaða sögu má segja um Merkurtungur, Steinsholt og Stakkholt en þar er ekki úr miklum gróðri að moða, fyrst og fremst mosi, grös og lyng og stöku runnar. Merkurtungur eru heldur ekki landmiklar, aðeins rani sem teygir sig niður á milli Hvanngiljanna tveggja og um helmingur Merkurtungna er fyrir ofan 500 metra hæð.

 

Goðaland er aftur á móti það svæði sem hefur upp á að bjóða hvað mesta fjölbreytni á þessu svæði. Þar er töluvert kjarr og trjágróður, mest norðan í Réttarfelli og í Básum, en trén og kjarrið hafa sótt mjög á á þessu svæði undanfarna áratugi og teygt sig víða inn í gil og hvamma. Á þessu svæði eru brekkur og hlíðar vel grasi grónar og í skjóli vinda og veðra má þarna finna margar plöntu- og blómategundir. Um Goðaland segir Þórður Tómasson:

Goðaland þótti besta beitiland allra Suðurafrétta, enda er þar víða lynggróður með ýmiss konar kjarngróðri og annars staðar er talsvert um hávaxið lyng og vöxtulegt birki, einkum í Básum umhverfis Hatt og fram undir Álfakirkju. (Þórður Tómasson, 1996)

Fyrir innan Goðaland eru svo afréttirnir Múlatungur og Teigstungur. Þeir eru líkt og Goðaland nokkuð vel grónir og þar er kjarr og trjágróður einnig í sókn, annars eru þar grónar brekkur og hlíðar sem setja mestan svip sinn á landslagið á þessum slóðum. Þarna er landið umvafið Mýrdalsjökli og frá honum skríða fram Tungnakvíslarjökull og Krossárjökull og setja mikinn svip á landið.

 

Láglendið frá Hólmabæjum að Hvammsnúp

Undirlendi undir Eyjafjöllum er ekki mikið miðað við hvað gerist og gengur annars staðar á Suðurlandi en er það nú að mestu gróið land, þrátt fyrir að Markarfljót og önnur vötn hafi lengi dansað um undirlendið í farvegsskiptum og lagt undir sig mikið af grónu landi undir aur og sand. En eftir að farið var að hafa hemil á þessum vatnsföllum og beina þeim í ákveðinn farveg á 20. öldinni þá hefur landið gróið upp til mikilla muna.

Farið er frá vestri til austurs frá Markarfljóti austur að Jökulsá á Sólheimasandi. Fyrst er komið á Markarfljótsaura sem nú má sjá að eru að mestu grónir mosa. Þegar ekið er inn í Eyjafjallasveitina nokkru vestan Markarfljóts er ekið í gegnum vel gróið land með þykkum gróðurjarðvegi. Skömmu austar er komið inn á Markarfljótsaura en þar hefur fljótið verið sett í einn farveg en sjá má ef litið er til suðurs að fljótið hefur brotið niður gróið land þarna og sést þar glögglega hve þykkt jarðvegslag liggur þarna, allt að nokkrir metrar á þykkt.

Rétt áður en ekið er yfir brúna má sjá að sandurinn er fljótur að gróa upp þar sem hann fær að vera í friði fyrir ágangi vatns en aurarnir eru nú þaktir mosa og grasgróðri en ekki er lengra síðan en 1996 að fljótinu var veitt í ákveðinn farveg þarna þegar nýja Markarfljótsbrúin var byggð. Þarna er því landið að endurheimta landgæði sín. Þegar komið er austur fyrir Markarfljót breytir landslagið um svip. Þar má segja að allt sé gróið og gasi vaxið milli fjalls og fjöru. Strax við fjallsrætur er gróðursæld mikil og skiptist þar á þurrlendisgróður og votlendi fram á Gljá þar sem Melgresi hefur tekið sér bólfestu í sandinum og hlaðið upp myndarlega Melgresishóla. Mikið er af ræktuðu landi á þessum slóðum og hefur votlendi víða verið þurrkað með skurðgreftri svo nýta megi það til búskapar. Haglendi á þessum slóðum er einnig víðáttumikið og gróðursælt.

Nokkuð er land þó blautt á milli Hafurshóls og Hvammsnúps en þar stendur land örlítið lægra. Fram fram til 1910 rann Markarfljót á þessum slóðum allt austur í Holtsós en land ber þess ekki lengur merki. Um jarðeyðingu af völdum Markarfljóts segir í Sunnlenskum byggðum eftir Árna Sæmundssyni í Stóru-Mörk:

Í Jarðabók Á. M. og P. V. er getið um landeyðingu á 17. öld. Þá lagðist Markarfljót að eystri jaðri farvegsins og eyddi mjög engjum frá jörðum við norðvestan- og vestanverð Eyjafjöll. Þá rann það austur með Fjöllunum austur í Holtsós og skemmdi margar jarðir suðvestan við Fjöllin en sumar fóru í eyði svo sem stórbýlið Hali, sem var suðvestur af Hafurshól. Urðu þar eftir víðáttumiklar sandleirur.

Frá Hvammsnúp að Holtsnúp

Þegar komið er fyrir Hvammsnúp er gróðurfar svipað og áður er sagt, land mjög gróið, þó er votlendi meira en fyrir utan Hvammsnúp. Mýrlendi nokkuð norðan þjóðvegarins austur að Írá og það sama má segja um landið sunnan þjóðvegar, þar er votlendi nokkuð. Austan Írár er land aftur á móti nokkuð þurrara og vel gróið, sérstaklega ofan vegar en neðan hans hefur land verið ræst mjög fram með skurðum til að þurrka það en þrátt fyrir það er þar nokkuð votlent. Á þessu svæði er land jafnt ræktað en beitarland er þar nokkuð suður að Holtsósi en hann teygir sig langt til vesturs á þessu svæði og sökum þess hve breytilegt vatnsborðs hans þá hefur hann nokkuð mikið um það að segja hversu land er blautt á þessum slóðum.

Þegar komið er austur að Holtsá breytist gróður nokkuð. Þar eru gamlar áreyrar en Holtsá, líkt og fleiri ár á þessu svæði, rann þarna um nokkuð stórt svæði áður fyrr og var land þarna því gróðurlítið langt fram á 20. öldina. En fyrir austan Holtsá hefur land verið ræktað sunnan þjóðvegar og eru þar nú góð tún.

Þá taka við grasi grónar brekkur þar sem skriðunum í Holtsnúp sleppir og austur að Núpakoti. En þó setja steinar og grjót, sem hrunið hafa úr fjallinu, svip sinn á þetta svæði norðan þjóðvegarins.

Sunnan við veginn er aftur á móti votlendi sem fylgir vatnsborði Holtsós nánast alveg fram á fjöru. En melar og melgresi hafa sest í landið milli fjöru og gróðurlendis og verja gróðurlendið fyrir ágangi sands.

 

Frá Holtsá að Skógá

 

Landið sunnan við þjóðveginn frá Holtsós og alla leið að Skógá er hulið samfelldri gróðurþekju þar sem skiptast á mýrar og votlendi, ræktuð tún og beitarhagar, móar og svo grýttir árfarvegir. Mikið hefur verið grafið af skurðum á þessu svæði til þess að þurrka land til landbúnaðarnytja. Þó er landið austan Kaldaklifsár þurrara en þar er meira mólendi og valllendi sem er mun þurrara en þar fyrir vestan.

Fyrir norðan þjóðveginn er landið frá Þorvaldseyri og austur að Kaldaklifsá nokkuð einsleitt. Þar eru grónar brekkur og láglendið nokkuð blautt, mýrar og votlendi en fyrir austan Kaldaklifsá er landið þurrara og þar hafa áraurarnir gróið verulega. Þar taka svo við grasi vaxnar brekkur upp að klettum eða upp á heiðarbrún austur fyrir Eystri-Skóga.

Þegar komið er austur fyrir Skógá breytist ásýnd landsins verulega svo ekki sé meira sagt. Þar tekur mikill sandur við sem nefnist Skógasandur.

 

Austan Skógár

 

Sunnan þjóðvegarins rétt vestan Skógár tekur við mikið tún sem kallast Sandræktin en þar var sandurinn ræktaður til að bæta úr brýnni þörf eyfellskra bænda sem skorti land til beitar og heynytja en fram til 1926 höfðu bændur undir Austur-Eyjafjöllum haft á leigu land Breiðabólsstaðarkirkju inn á Goðalandi. En það land var friðað sama ár og misstu þá eyfellskir bændur stóran spón úr aski sínum og höfðu lítið svigrúm til beitar fyrir sauðfé sökum lítilla heiðarlanda og landlítilla jarða. Var þá ráðist í það í samstarfi við Landgræðslu ríkisins að girða 1200 ha. lands á sandinum fyrir neðan Skóga. Í upphafi var sáð í 100 hektara lands en síðan varð ræktað land alls 320 hektarar.

Þessi ræktun fór fram á árunum 1956 og 1957. Mest höfðu bændur þarna til umráða 22 ha. en minnst 3 ha. þetta var kærkominn búbót og hefur reynst bændum undir Eyjafjöllum vel í gegnum tíðina en nú er svo komið að jörðum í ábúð hefur fækkað og því hefur nýting á sandinum minnkað til muna undanfarin ár. Ofan þjóðvegar á móts við Skóga er nú nokkur skógrækt sem á eftir að dafna og vaxa á komandi árum og vefja staðinn hlýjum örmum.

Annars er land austan Skógár á láglendi að mestu sandur og auðn. Þó er mólendi upp við fjallsræturnar fyrir austan Skóga og austur að Eystri-Skógum að nokkru leyti. Fyrir austan Eystri-Skóga og að Jöklusá á Sólheimasandi hefur verið ráðist í mikla uppgræðslu norðan þjóðvegar og hefur land þar tekið miklum stakkaskiptum hin síðari ár.

Neðan þjóðvegar er land aftur á móti að mestu auðn, mótað af eldvirkni og jökulám síðustu árþúsunda, þó er niðri á sandinum nokkuð melgresi. Í árfarvegi Jökulsár á Sólheimasandi er svo mikið mólendi mosagróið frá fjöru upp að skriðjöklinum. Þar er að finna mikið berjaland ásamt fjölbreyttum gróðri ýmissa plantna.

 

 

Fjöll og heiðar frá Stóru-Mörk að Miðskálaegg

 

Frá Stóru-Mörk að Seljalandi hækkar landið nokkuð jafnt og þétt, það er að segja, ekki eru þar miklir klettar, brattar brekkur sem síðan verða aflíðandi heiði upp að jökli. Þarna eru brekkur nokkuð vel grónar en þó má sjá uppblásin moldarbörð upp að heiðarbrún en einnig setja skriður svip sinn á landslagið. Þegar komið er upp á heiðarbrúnina þá verður landið gróðursnauðara þar sem skiptast á melar og mólendi, þar sem svæði geta verið nokkuð vel gróin grösum en svo aftur á móti svæði þar sem fátt er annað en sandur og grjót. Þegar komið eru upp í 700 metra hæð verður landið gróðursnauðara og eftir því sem ofar dregur að jökli fer gróður verulega minnkandi og endar í jökulurð við jökulrætur.

Frá Seljalandi austur að Mið-Skála er gróðurfarið með svipuðu móti. Austan við Seljaland rís klettabeltið upp af láglendinu, allt að 200 til 300 metra hátt. í klettunum má sjá grónar syllur sem gefa dökkum klettunum grænt og hlýlegt yfirbragð. Þegar komið er upp á heiðarbrúnina taka við melar og gróin svæði. Eitt vel gróið svæði er t.d. Tröllagilsmýri í Hamragarðaheiði. Þar er land vel gróið eins og örnefnið gefur til kynna. Austan Tröllagilsmýrar er heiðin nokkuð flöt frá klettabrún upp í 500 metra hæð. Á þessu svæði er landið nokkuð gróið grasi á köflum en á milli melar og uppblásin svæði. Fyrir ofan 500 metra hæð verður gróður svo hrjóstrugri og verða gróðursvæði minni er ofar dregur þar til jökulurðin tekur völd í um 800 metra hæð.

 

Austan frá Ásólfsskála að Seljavöllum

 

Frá Miðskálaegg í Miðskálaheiði austur að Holtsnúp tapar landslagið flatlendinu og við tekur svæði gilja og skorninga þar sem skiptast á brattar tungur og djúp og tilkomumikil gil.

Gróður á þessu slóðum er nokkur en heiðin upp að jökli en mun styttri þarna en á svæðinu fyrir vestan Miðskálaegg. Þarna skiptast á opin, gróðurlítil svæði og svo grasi grónar torfur, en fyrir ofan 700 metra fer gróður mjög minnkandi og þá tekur jökulurðin við upp að jökli líkt og annars staðar. Neðst í Ásólfsskálaheiði og upp Holtsdal er land vel grasi gróið og í skriðu einni mikilli undir Svarthömrum norðvestan í Holtsnúp er reyniviðarhrísla sem stingur verulega í stúf þar sem hún stendur græn upp úr blágrýtisskriðunni. En skriðan hefur sennilega bjargað henni frá ágangi sauðfjár, enda ill yfir að fara.

Steinafjall skagar fram úr heiðinni á þessu svæði; stórt þríhyrnt fjall. Hæst rís Leynir nyrst á fjallinu, 706 metra hár. Frá Leyni teygir fjallið sig til vesturs og endar að sunnanverðu í Holtsnúp en að austan endar það í Núpafellsnúp. Steinafjall er mjög bratt á alla kanta og gróðurlítið að vestan. Fram í Holtsnúp uppi á fjallinu er gróður fremur lítill en þar má þó finna gróna hvamma og lautir. Að framan er fjallið stöllótt þar sem skiptast á klettar og gróðurtorfur. Að austan er fjallið gróið brattri brekku norðan Núpakotsnúps sem teygir sig inn að heiðinni.

Svæðið frá Kolbeinsskarði norðan Steinafjalls og að Raufarfelli er einnig nokkuð gilskorið, heiðarlönd lítil. Brekkur eru grónar en nokkuð er um rofabörð þar sem landið hefur verið og er að blása upp. Þá taka við grjótmelar upp að jökli. Niður úr heiðinni gengur svo Lambafellsháls sem endar í samnefndu felli, Lambafelli, sem er lágt, fell bratt til suðurs með klettum, annars nokkuð vel gróið á allar hliðar. Lambafellshálsinn hefur á undanförnum árum verið græddur upp en þar voru áður stór rofabörð en með átaki Lionsklúbbs Eyfellinga og Mýrdælinga og bænda á svæðinu hefur verið unnið þarna mikið landgræðsluátak. Og nú er svo komið að landið er aftur grænt ásýndar á þessu svæði.

 

Frá Rauðafelli að Kaldaklifsárgili

Við tekur Seljavalladalur en þar er gróður mikill, bæði í botni dalsins þar sem allmargir lækir skera landið og setja svip á það til vesturs. Raufarfell er vel gróið upp í um 600 metra hæð en þar tekur við gróðurlítill hryggur sem tengir jökuljaðarinn og Raufarfell/Rauðafell saman. Raufarfell og Rauðafell er í raun eitt og sama fellið, að vestan nefnt Raufarfell eftir rauf í fellinu en að austan Rauðafell eftir rauðleitum hlíðum sunnan í fellinu. Fell þetta er frekar gróðurlítið, miklar skriður eru í því og því lítið um samfelldan gróður. Það er helst austan í fellinu sem gróður er nokkur upp með Selá og sunnan Skjannanípu. Hálsinn upp að jökli að austanverðu er ekki eins brattur og vestan megin en aftur á móti mjög gilskorinn. Þar innarlega er mikið jarðhitasvæði og gróður ekki mikill einna helst í giljum og skorningum.

Austur af hálsinum sker svo Kaldaklifsárgil landið frá jökulrönd og niður á láglendið, djúpt og stórbrotið gil.

 

Drangshlíðarfjall, Hrútafell og Hrútafellsheiði

 

Austan Kaldaklifsár rísa Hrútafell og Drangshlíðarfjall upp af láglendinu. Hrútafell um 150 metra hátt með klettaveggjum á allar hliðar, að ofan vel gróið og grösugt. Drangshlíðarfjall er 476 metra hátt, sömuleiðis vel gróið.

Norðan Drangshlíðarfjalls er svo Hrútafellsheiði en hún nær austur að Skógá. Hrútafellsheiðin er fremur láglend, það er hún er mjög aflíðandi og heiðarbrúnin í lítilli hæð, en hún er líkt og aðrar heiðar í sveitinni brennimerkt af uppblæstri þar sem sjá má stórar gróðurtorfur vera að blása upp. Þar má sjá að jarðvegurinn á þessu svæði er mjög þykkur en er nú á undanhaldi. En enn má finna nokkuð gróin svæði allt upp að Botnum norðan Hornfellsnípu. Þar fyrir ofan er gil sem liggur vestur í Kaldaklifsárgil og sker heiðina þvera. Fyrir ofan þetta gil eru þrjár tungur sem eru frekar gróðurlitlar sökum mikillar hæðar á svæðinu. Þó sækja kindur þangað í sumarhaga ár hvert.

 

Skógaheiði, Fimmvörðuháls og austur að Sólheimajökli

 

Þá er komið í Skógaheiði fyrir austan Skógárgil. Líkt og Hrútafellsheiðin er hún frekar lálend og flöt upp að Kambfjöllum sem skera landið þvert frá vestri til austurs. Fyrir neðan Kambfjöll er gróður allnokkur og jarðvegur þykkur, sérstaklega vestast en eins og í Hrútafellsheiði er uppblástur nokkur, vestar í heiðinni nær Kvernu er gróðurmeira mólendi og melar sem á síðari árum hefur verið í töluverðri sókn hvað gróður varðar. Á þessum slóðum hefur mosagróður tekið sér bólfestu og gefur landinu fallega ásýnd.

Fyrir ofan Kambfjöll er annað upp á teningnum. Þar eru skörp skil hvað gróður varðar en þar er jörð grýtt og lítið um samfelldan gróður, mest hrjóstrugir melar en þó er þarna mosagróður á köflum en þegar komið er upp á Fimmvörðuháls verður auðnin algjör, vart stingandi strá. Aðeins harðgerður mosagróður og strá á stöku stað.

Fyrir austan Kvernugil er heiðin nokkuð vel gróin. Ekki er jarðvegur eins þykkur og fyrir vestan en gróður ívið meiri ef eitthvað er. Neðst í heiðinni milli Kvernu og Dalár (Dölu) er nokkuð mýrlendi í svokallaðri Ásgeirsheiði. En fyrir ofan hana er gróður allnokkur upp að Hnaukabrúnum og Ölduhrygg en fer þar minnkandi sem ofar dregur upp að Mýrdalsjökli.

Austan við Dalárgil (Dölugil) og austur að Sólheimajökli er landið nokkuð vel gróið, mikill gróður í giljum en mýrlendi fremst í heiðinni, sem á þessum stað nefnist Skógaheiði, austur að Fjallsá. Þar austan við í Skógafjalli er gróður nokkuð mikill. Svæði þetta fyrir austan Eystri-Skóga er margbrotið og fegurð þess mikil.

Austan Sólheimajökuls tekur svo Mýrdalurinn við.

 

Helstu heimildir:

Jón Jónsson, Eyjafjöll drög að jarðfræði, Rannsóknastofnunin Neðri Ás, Hveragerði, 1998.

Árni Sæmundsson, Jón Kjartansson, Ólafur Sveinsson, Þórður Tómasson, Sunnlenskar byggðir IV – Rangárþing I, Búnaðarsamband Suðurlands, Reykjavík, 1982.

Þórður Tómasson, Þórsmörk, land og saga. Mál og menning, Reykjavík 1996

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top