Fuglalíf í Eyvindarholti og þjóðtrú og fuglar

Jaðrakan í Eyvindarholti

Eyvindarholt er nokkuð vel í sveit sett þegar kemur að fuglaskoðun. Það má alltaf finna einhverja fugla á svæðinu og stutt er í mörg gjöful fuglaskoðunarsvæði.

Á veturna má oft hitta á Snjótittlinga í Eyvindarholti og Hrafnin er þar gaglegur gestur. Músarindill er þar annað slagið yfir veturinn. Einnig má stundum finna Skógaþresti í trjálundinum. 

Á sumrinn er fuglalífið fjölbreyttara. Þá bætast við Jaðarakan, Lóa, Spói og fleiri fuglar.

Nokkuð mikið er af öndum á svæðinu svo sem við Stóru-Dímon og á lækjum og tjörnum í Fljótshlíð. En oft má finna Straumönd við Gluggafoss á sumrin.

Það er líka gaman að kíkja í Landeyjahöfn en þar má finna máfa og sjófugla. 

Önnur góð fuglaskoðunarsvæði eru við Holtsós, niður með Rangánum og öðrum ám á svæðinu.

Hér fylgir svo til gamans grein úr Goðasteini þar sem fjallar um þjóðtrú og fugla.

Þjóðtrú og fuglarnir

Svo marga þætti spennti þjóðtrúin í haldreipi sitt, að ekki gat hjá því farið að furlarnir eignuðust þar hlut að máli. Liggja þær rætur djúpt í liðnum öldum, því að fáar eru þær íslenzkar fornsögur, sem ekki geta furla í sambandi við mikla atburði. Fáir fuglar urðu þar fyrirferameiri en hrafninn. Þykir mér því hæfa að taka fyrst til athugunar, hvað mýrdælsk þjóðtrú sagði um þann merka fugl og geymzt hefur í minni fram á þennan dag.

Ef hrafninn settist á stein eða staur að morgni dags, ýfði fiður og hristi sig, vissi það á storm og úrkomu, áður en sá dagur væri allur.

Ef flygi hann hátt og krunkaði léttilega, vissi það á gott og bjart veður.

Ef hrafn settist á heysátu, rifi í hana og krafsaði, var gefið að lítið hefðist af henni og ekki annað líklegra en að hún fyki. En sæti hann kyrr, krunkaði nokkrum sinnum og flygi síðan í átt til bæjar, hirtist hún bráðlega.

Ef hrafnar rifurs  og flugu hátt, vissi það á vont veður. Væri maður á ferð eftir dagsetur og heyrði hrafn krunka, án þess að hann yrði fyrir ónæði á náttbóli sínu, gat sá hinn sami búizt við að eiga ekki langt líf fyrir höndum.

Væri maður á ferð og hrafn settist skammt frá götu hans, ýfði sig og gargaði illilega, boðaði það slæmar fréttir þeim, er fyrir varð, og gjarna bárust honum þær fréttir á sama stað á bakleið.

Tæki hrafn upp á því fyrri hluta vetrar að sigja og krunda á gripahúsum, var eins víst að ekki sæju allar skepnur í því húsi vordagana.

Eins var, ef hann tók upp á því að vera hjá sauðfé í haga og láta þar illa. Var þá viðbúið,  að einhvað fækkaði í hjörðinni.

En tæki hrafn upp á því að sitja á baki sauðfjár eða hrossa, vissi það á slæma tíð og harðindi og jafnvel hreinan og beinan felli, er að vori leið.

Væri maður að leggja af stað í fjárleit til heiða fyrri hluta vetrar, var ekki lítið undir því komið, hvernig hrafninn hagaði sér, þegar nokkuð var komið frá bæ. Ef maður mætti hrafni, sem kom fljúgandi úr þeirri átt, er halda skyldi, og hann steinþagði, voru lítil líkindi á að finna fé. En kæmi hann gargandi, var eins líklegt að maður fyndi dauða kind. Flygi hann í sömu átt, sem maður hélt, og krunkaði glaðlega, átti það vart að bregðast að kindur fyndust í ferðinni.

Meðan sjóróðrar voru stundaðir hér í Mýrdal, var ekki svo lítið mark tekið á því, hvernig hrafninn hagaði sér og þóttu aflabrögð mjög fara eftir því. Væri ekki komið fram að sjó, fyrr en bjart var orðið og hrafn sæti í fjörunni, án þess að um fisk- eða sílisreka væri að ræða, vissi það á afla þann daginn og því meiri, sem hann hagaði sér matarlegar, t.d. ef hann hoppaði og krunkaði glaðlega, var von á góðum afla.

Þá þótti heimafólki það góðs viti, ef hrafn kom að morgni fljúgandi úr þeirri átt, sem heimilismaður stundaði útræði, og settist krunkandi á eða nálægt þeim stað á túninu, þar sem vant var að slægja fiskinn. Þótti þá ekki bregðast, að fiskur kæmi þangað að kveldi.

Ekki er þetta tæmandi upptalning á þætti hrafnsins í þjóðtrúnni, en verður vegan takmarkaðs rúms að næja. Vert er að geta þess, að ekki þótti gæfumerki að áreita hrafninn að ástæðulausu, og til voru þær húsmæður, sem töldu sig fá það vel borgað, sem þær gáfu honum, enda vel þekkt máltæki, „Guð borgar fyrir hrafninn“. En ekki var hrafninn eini fuglinn, sem þjóðtrúin hafði helgað sér, ekki hvað sízt í sambandi við verðurspá.

Skulu nú taldir helztu spáfuglar aðrir.

Spóinn var merkur spáfugl. Eftir að sláttur hófst, var það óræk spá um allt að vikurosa, ef spóar komu að kveldi dags og spókuðu sig heima á túnum, sem búið var að hriða.

En væru þeir horfnir úr vallendinu einhvern morguninn og sæjust þar ekki allan daginn, mátti vonast eftir þurrki strax næsta dag. Þó var meira vert um spádómsgáfu þeirra ávorin, því að ef spóinn langvelldi, þ. e. Gaf frá sér langa, samfellda runu af hljóðum, var vorbatinn kominn fyrir alvöru. Um það var þessi klausa: „Þegar spóinn vellir graut, þá eru úti vorhörkur og vetrarþraut.“

Tjaldurinn var allgóður spáfugl. Ef hann blístraði mikið að morni dags í björtu veðri, mátti búsat við skúr, áður en sá dagur væri liðinn. Vænlegra var, ef hann tók upp á því að vera með háreysti undir háttumálin. Var þá von á þurrki daginn eftir. Heiðlóan vissi líka á hverju var von. Ef hún í björtu veðri safnaðist fyrri hluta dags að vatni og tók að baða sig, vissi það á rigningu.

Væri hún á sífelldu flökti og flygi með miklum þyt, vissi það á storm. Flygi hún upp í valllendið að kvöldi, er á sumar leið, boðaði það þurrka, og ræki hún upp eitt og eitt kvak stakt að kvöldi, átti ekki að bregðast þurrkur dag eftir. Lakara var, ef mikill kliður var í henni fyrri hluta dags í björtu veðri, því að þá mátti búast við skúr. Þegar komið var fram á haust, mátti búast við snjókomu, ef lóan var hnípin og hélt sig heima við bæi.

Ekki var fýlinn heldur frásneyddur allri spádómsgáfu. Ef hann síðari hluta vetrar sat mikið í berginu, þó kuldi væri, boðaði það hláku og hlýrra veður. Sama var, ef hann kom fljúgandi í hópum inn til landsins. En ef kulda boðaði það, ef hann síðari hluta dags hvarf úr berginu og flaug til sjávar.

Trú mann var, að andi álftarinnar væri mjög eitraður. Talið var, að blési álft á mann og væri svo nærri, að blástur hennar næði volgur til mannsins, væri ekki annað líklegra en að sá hinn sami yrði holdsveikur.

Sérstakt happamerki var að finna fætur af gráhegra og þó bezt að ná honum lifandi og taka af honum fæturna meðan hann enn var volgur. Síðan átti að binda þá saman og hengja annað tveggja í búrbita eða dyraloft ef fyrir hendi var. Einhvern tíma í ungdæmi mínu lærði ég eftirfarandi kviðling um slíkt:

Þorleifur á reka reið,

Rauður fékk að þæfa.

Honum mætti heim á leið

heldur en ekki gæfa.

Hvorki var það hvalur né staur,

heldur miklu fegra.

Það voru fætur ofan í aur

af sjálfdauðum hegra.

 

Þetta verður að nægja í bili um þjóðtrú og fulga

 

Heimid: Goðasteinn, 7.árg. 1. hefti, 1968, Einar H. Einarsson skráði.

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top